Noregur vann tólf marka sigur

Nora Mørk fagnar einu af sjö mörkum sínum í morgun.
Nora Mørk fagnar einu af sjö mörkum sínum í morgun. AFP

Norska kvennalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, vann öruggan 35:23-sigur á Svartfjallalandi í þriðju umferðinni á Ólympíuleikunum í morgun. Norðmenn hafa þar með unnið alla þrjá leiki sína og eru á toppi A-riðils.

Þær norsku virtust reyndar ekki ætla sigla öruggum sigri í höfn lengst framan af. Svartfellingar voru um tíma þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik og í hléinu var staðan jöfn, 13:13. Jovanka Radicevic var drjúg í liði Svartfjallalands, skoraði sex mörk.

Stöllur Þóris fóru hins vegar á flug eftir hlé og skoruðu um miðbik síðari hálfleiks ein níu mörk í röð áður en þær unnu öruggan 12 marka sigur. Nora Mørk og Henny Reistad voru markahæstar í norska liðinu, báðar með sjö mörk.

Tveir aðrir leikir voru spilaðir í A-riðli í nótt. Holland vann 37:28-sigur á Angóla og er, eins og Noregur, með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. Toppliðin mætast einmitt í næsta leik á laugardaginn. Þá töpuðu heimakonur í Japan fyrir Suður-Kóreu, 27:24 og eru nú bæði lið með tvö stig í 4. og 5. sæti en fjögur efstu liðin komast áfram.

Þá fór einn leikur fram í B-riðlinum þar sem Spánverjar unnu 27:23-sigur á Brasilíu. Spánverjar eru því með fjögur stig, eins og Svíar sem eiga leik til góða. Brasilía er með þrjú stig.

mbl.is