Egyptar skelltu Svíum

Hart barist í leiknum í morgun.
Hart barist í leiknum í morgun. AFP

Egyptaland gerði sér lítið fyrir og vann öruggan 27:22-sigur á Svíþjóð í B-riðlinum í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Egyptar tóku strax stjórnina, náðu forystu og létu hana ekki af hendi það sem eftir lifði leiks.

Staðan var 13:9 í hálfleik og komust Egyptar mest í fimm marka forystu, 10:5, í fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleiknum héldu Egyptar í forskot sitt og komust mest í sex marka forystu, sem þeir náðu nokkrum sinnum.

Að lokum reyndist fimm marka sigur staðreynd og Egyptar hafa þar með sætaskipti við Svía í öðru sæti B-riðils. Bæði lið eru með sex stig og bæði komin áfram í fjórðungsúrslit.

Mohammad Sanad var markahæstur Egypta með sex mörk en Lucas Pellas var markahæstur í liði Svía og í leiknum með sjö mörk.

mbl.is