Guðni komst ekki áfram

Guðni Valur Guðnason í kasthringnum á Ólympíuleikvanginum í Tókýó í …
Guðni Valur Guðnason í kasthringnum á Ólympíuleikvanginum í Tókýó í nótt. AFP

Guðni Valur Guðnason hefur lokið keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó en undankeppninni í kringlukasti karla var að ljúka.

Guðni gerði öll þrjú köstin ógild. Kringlan fór beint í netið í fyrsta kastinu en í öðru kasti sveif hún hárfínt út fyrir brautina hægra megin. Það þriðja var gilt til að byrja með, var um 56-57 metrar, en Guðni steig út fyrir og gerði kastið ógilt.

Honum hefði dugað að kasta tæpa 63 metra til að ná tólfta sætinu og komast í úrslitakeppnina en tólfti maður af þeim 36 sem tóku þátt kastaði 62,93 metra.

Guðni sagði við RÚV að keppni lokinni að sennilega hefði fyrsta kastið verið hans besta en kringlan hefði runnið aðeins til í hendi sér í kastinu. 

Þar með hafa allir íslensku keppendurnir á þessum Ólympíuleikum lokið keppni.

Daniel Stahl frá Svíþjóð kastaði lengst.
Daniel Stahl frá Svíþjóð kastaði lengst. AFP

Daniel Stahl frá Svíþjóð, með Véstein Hafsteinsson sem þjálfara, kastaði lengst allra í undankeppninni, 66,12 metra, og náði því í fyrsta kasti í fyrri riðlinum. Hann þurfti því bara eitt kast og var sá eini af 32 keppendum sem fór yfir 66 metrana sem var lágmarkslengd  til að vera öruggur í úrslitin.

Hinn sænski kastarinn sem Vésteinn þjálfar, Simon Pettersson, kastaði 64,18 í þriðja kasti, varð sjöundi og tryggði sér með því sæti í úrslitunum.

mbl.is