Heimsmeistararnir slógu Evrópumeistarana út

Megan Rapinoe skoraði úr síðustu vítaspyrnu Bandaríkjanna og tryggði þar …
Megan Rapinoe skoraði úr síðustu vítaspyrnu Bandaríkjanna og tryggði þar með sigurinn. AFP

Bandaríkin höfðu betur gegn Hollandi í síðasta leik fjórðungsúrslitanna í knattspyrnu kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit eftir frábæran leik.

Markamaskínan Vivianne Miedema kom Hollendingum yfir á 18. mínútu áður en Bandaríkjakonur svöruðu með tveimur mörkum á þremur mínútum.

Sam Mewis jafnaði metin á 28. mínútu og Lynn Williams kom Bandaríkjunum yfir á 31. mínútu.

Staðan 2:1 í hálfleik, en Miedema var aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleiknum og jafnaði metin í 2:2 á 54. mínútu, hennar tíunda mark í aðeins fjórum leikjum í keppninni.

Á 80. mínútu fengu Hollendingar gullið tækifæri til þess að tryggja sér sigurinn þegar vítaspyrna var dæmd. Lieke Martens steig á vítapunktinn en Alyssa Naeher varði mjög vel frá henni.

Að loknum venjulegum leiktíma var staðan því 2:2 og var hún það enn að lokinni framlengingu.

Því var gripið til vítaspyrnukeppni. Þar reyndust Bandaríkjakonur hlutskarpari og skoruðu úr öllum fjórum spyrnum sínum á meðan tvær af spyrnum Hollendinga geiguðu.

Miedema klúðraði óvænt fyrstu spyrnu keppninnar þegar Naeher varði og hún varði svo einnig fjórðu spyrnu Hollendinga, í það skiptið frá Aniek Nouwen.

Spyrnur Bandaríkjakvenna voru allar gífurlega öruggar og þá sérstaklega hjá Megan Rapinoe, sem tryggði 4:2-sigurinn í vítakeppninni með eins öruggri spyrnu og þær verða; innan fótar rakleitt upp í samskeytin á meðan Sari van Veenendaal skutlaði sér í rangt horn.

Heimsmeistarar Bandaríkjanna freista þess nú að fara alla leið og vinna sitt fimmta Ólympíugull.

Í undanúrslitunum bíða nágrannar þeirra í Kanada, sem unnu Brasilíu 4:3 í vítaspyrnukeppni í morgun.

mbl.is