Heimsmet og fyrsta sundgull aldarinnar fyrir þjóð sína

Tatjana Schoenmaker fagnar ásamt keppinautunum eftir að hafa slegið heimsmetið …
Tatjana Schoenmaker fagnar ásamt keppinautunum eftir að hafa slegið heimsmetið í 200 metra bringusundi. AFP

Suðurafríska sundkonan Tatjana Schoenmaker setti í nótt nýtt heimsmet í 200 metra bringusundi þegar hún varð ólympíumeistari í greininni í Tókýó.

Schoenmaker sló ólympíumetið í undanúrslitunum þegar hún synti á 2:19,16 mínútum. Í úrslitasundinu í nótt gerði hún enn betur og sló heimsmetið með frábærum endaspretti og synti á 2:18,95 mínútum. Hún er fyrsta suðurafríska konan sem fær ólympíugull í sundi á þessari öld en Schoenmaker var áður búin að krækja sér í silfur í 100 metra bringusundinu.

Bandaríkin fengu silfur og brons en Lilly King og Annie Lazor höfnuðu í öðru og þriðja sæti.

Emma McKeon fagnar gullinu og ólympíumetinu í 100 metra skriðsundinu.
Emma McKeon fagnar gullinu og ólympíumetinu í 100 metra skriðsundinu. AFP

Emma McKeon frá Ástralíu sigraði í 100 metra skriðsundi á ólympíumeti, 51,96 sekúndum. Siobhan Haughey frá Hong Kong varð önnur á 52,27 sekúndum og Cate Campbell frá Ástralíu varð þriðja. Sjötta gull Ástrala í sundinu á þessum leikum.

Evgeni Rilov er kominn með tvenn gullverðlaun í Tókýó.
Evgeni Rilov er kominn með tvenn gullverðlaun í Tókýó. AFP

Heimsmeistararinn Evgeni Rilov frá Rússlandi fékk sitt annað gull á leikunum þegar hann sigraði í 200 metra baksundi en hann hafði áður unnið 100 metra baksundið. Rilov setti ólympíumet og synti á 1:53,27 mínútu. Ryan Murphy frá Bandaríkjunum, sem vann greinina í Ríó 2016, fékk silfrið og Luke Greenbank frá Bretlandi bronsið.

Shun Wang er ólympíumeistari í 200 metra fjórsundi karla.
Shun Wang er ólympíumeistari í 200 metra fjórsundi karla. AFP

Shun Wang frá Kína sigraði í 200 metra fjórsundi karla á 1:55,00 mínútum. Duncan Scott frá Bretlandi fékk silfrið á 1:55,28 mínútum og bronsið fékk Jeremy Desplanches frá Sviss á 1:56,17 mínútum.

mbl.is