Kanada í undanúrslit eftir sigur í vítakeppni

Stephanie Labbé er vítabani mikill.
Stephanie Labbé er vítabani mikill. AFP

Kanada er komið áfram í undanúrslitin í knattspyrnu kvenna eftir að hafa unnið 4:3-sigur gegn Brasilíu í vítaspyrnukeppni í fjóðrungsúrslitunum í morgun.

Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og framlengingu og því þurfti sem áður segir vítakeppni til þess að knýja fram úrslit.

Hin þaulreynda Christine Sinclair tók fyrstu spyrnu keppninnar en Bárbara í marki Brasilíukvenna varði spyrnuna næsta auðveldlega.

Liðin skoruðu svo úr næstu sex spyrnum, eða allt þar til Stephanie Labbé varði spyrnu Andressu. Staðan þar með orðin 3:3 þegar Adriana Leon steig á punktinn og skoraði af öryggi fyrir Kanada úr fimmtu spyrnu liðsins.

Staðan var orðin 4:3 þegar Rafaella átti fimmtu og síðustu spyrnu Brasilíukvenna. Labbé gerði sér lítið fyrir og varði hana líka og tryggði Kanada þannig áfram í undanúrslitin.

Þar mun liðið mæta sigurvegurunum úr viðureign Hollands og Bandaríkjanna, sem er nýhafin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert