Þjóðverjar standa vel eftir sigur á Norðmönnum

Alfreð Gíslason fylgist með sínum mönnum í þýska liðinu gegn …
Alfreð Gíslason fylgist með sínum mönnum í þýska liðinu gegn Norðmönnum í dag. AFP

Alfreð Gíslason og þýska karlalandsliðið í handknattleik stigu stórt skref í átt að átta liða úrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag með því að vinna sannfærandi sigur á Norðmönnum, 28:23.

Staðan var 14:11 Þjóðverjum í vil í hálfleik og þeir héldu forystunni allan síðari hálfleikinn og hún varð mest fimm mörk. Uwe Gensheimer skoraði 6 mörk fyrir Þjóðverja og Timo Kastening 5, en Sander Sagosen skoraði 7 mörk fyrir Norðmenn og Magnus Jöndal 5.

Þar með eru bæði Noregur og Þýskaland með 4 stig fyrir lokaumferðina en Brasilía er með tvö stig. Tvö þessara liða komast áfram úr riðlinum og fylgja Frakklandi og Spáni í átta liða úrslit.

Þýskaland mætir Brasilíu í lokaumferðinni á meðan Norðmenn þurfa að glíma við Frakka. Þjóðverjar þurfa stig úr leiknum til að vera alveg öruggir, en ef Norðmenn ná stigi gegn Frökkum fer Brasilía áfram með því að sigra Þýskaland.

Að öðrum kosti mættu Þjóðverjar tapa leiknum gegn Brasilíu með allt að fjögurra marka mun en fara samt áfram. En þeir vita stöðuna fyrir leikinn því leikur Noregs og Frakklands fer fram á undan leik Þýskalands og Brasilíu á sunnudaginn.

mbl.is