Fórnaði sér fyrir liðið og uppskar Ólympíugull og heimsmet

Sundsveit Stóra-Bretlands sýndi magnaða liðsframmistöðu.
Sundsveit Stóra-Bretlands sýndi magnaða liðsframmistöðu. AFP

Blönduð sundsveit Stóra-Bretlands í 4x100 metra blönduðu boðsundi setti heimsmet í nótt þegar liðið synti á 3:37,58 mínútum og tryggði sér þar með gull á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Sundsveitin samanstóð af þeim Kathleen Dawson, Adam Peaty, James Guy og Önnu Hopkin og var það magnað framlag Guy sem vakti hvað mesta athygli.

Hann ákvað að sleppa því að keppa í úrslitum í 100 metra flugsundi, grein sem hann átti góða möguleika á að vinna til einstaklingsmedalíu í, til þess að hjálpa frekar liði Stóra-Bretlands í boðsundi, en rástímar voru of þétt og þurfti Guy því að velja.

Flugsund hans í þriðja legg lagði svo grunninn að mögnuðum sigri Breta, en þegar hann hóf sitt sund í boðsundinu voru Bretar í fjórða sæti.

Hann kom liðinu hins vegar í forystu með frábæru sundi og Hopkin, sem synti skriðsund, hélt sömuleiðis afar góðum hraða í fjórða og síðasta leggnum og tryggði þar með Stóra-Bretlandi ólympíugull og sá til þess í leiðinni að heimsmet Kínverja frá síðasta ári var slegið.

Kína nældi í silfur og Ástralía tók bronsið í greininni.

mbl.is