Keppir hvorki í stökki né á tvíslá

Biles hafði þegar dregið sig út úr fjölþrautinni og úr …
Biles hafði þegar dregið sig út úr fjölþrautinni og úr úrslitum liðakeppninnar, vegna andlegs álags og pressu. AFP

Fjórfaldi ólympíumeistarinn og bandaríska fimleikastjarnan Simone Biles mun ekki keppa í úrslitum í stökki og á tvíslá á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrramálið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bandaríska ólympíusambandinu.

Biles hafði þegar dregið sig út úr fjölþrautinni og úr úrslitum liðakeppninnar, vegna andlegs álags og pressu. Hún hafði þó keppt í forkeppni á einstökum áhöldum fyrr á leikunum þar sem hún stóð sig best allra.

Í tilkynningunni frá sambandinu kemur fram að Biles treysti sér ekki til þess að keppa í úrslitum stökksins og tvíslárinnar en enn sé í skoðun hvort hún keppi í úrslitum gólfæfinganna á mánudag og í úrslitum á jafnvæigsslá á þriðjudag.

„Við erum ekki bara íþróttafólk“

„Eftir frammistöðu mína vildi ég bara ekki halda áfram. Ég verð að einbeita mér að andlegri heilsu minni og ég held að umræða um andlega heilsu sé betur samþykkt núna í íþróttum,“ sagði Biles eftir frammistöðu sína.

„Við verðum að vernda bæði hug okkar og líkama en ekki bara fara og gera það sem heimurinn vill að við gerum. Ég treysti mér ekki nógu vel lengur.

Við erum ekki bara íþróttafólk. Þegar allt kemur til alls erum við einnig fólk og stundum verður maður bara aðeins að staldra við,“ bætir hún svo við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert