Lærisveinar Vésteins tóku gullið og silfrið

Simon Pettersson og Daniel Ståhl fagna árangrinum í dag.
Simon Pettersson og Daniel Ståhl fagna árangrinum í dag. AFP

Svíinn Daniel Ståhl fór með sigur af hólmi í úrslitum kringlukasts karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag og vann þar með sitt fyrsta ólympíugull á ferlinum.

Ståhl, sem er ríkjandi heimsmeistari í greininni eftir að hafa sigrað á heimsmeistaramótinu í Doha í Katar árið 2019, kastaði kringlunni 68,90 metra í öðru kasti sínu, sem reyndist nóg til að skáka landa sínum Simon Pettersson, sem lenti í öðru sæti eftir að hafa kastað 67,39 metra í fimmta kasti sínu.

Pettersson komst þar með á verðlaunapall í fyrsta sinn á ferli sínum.

Vésteinn Hafsteinsson, sem var sjálfur margfaldur Íslandsmeistari í kringlukasti og tók þátt í fernum Ólympíuleikum á ferlinum, er þjálfari Svíanna tveggja og má því ansi vel við una yfir árangrinum.

Austurríkismaðurinn Lukas Weisshaidinger nældi sér í bronsverðlaunin, en hann kastaði 67,07 metra í sínu þriðja kasti.

mbl.is