Noregur vann toppslaginn og riðilinn

Nora Mørk stóð undir nafni og skoraði níu mörk í …
Nora Mørk stóð undir nafni og skoraði níu mörk í leiknum gegn Hollandi í dag. AFP

Norska kvennalandsliðið í handknattleik, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, vann sterkan 29:27 sigur á Hollandi í uppgjöri tveggja efstu liðanna í A-riðlinum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Með sigrinum er Noregur búið að tryggja sér sigur í riðlinum þegar ein umferð er enn óleikin og fer því afar örugglega í fjórðungsúrslitin.

Leikurinn var hnífjafn til að byrja með en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn hertu Norðmenn tökin og komust mest í fjögurra marka forystu, 11:7, og voru með þriggja marka forystu, 16:13, í leikhléi.

Hollendingar gáfust ekki upp og ekki leið á löngu þar til Holland var búið að jafna metin í 20:20.

Hollendingar héldu áfram að velgja Norðmönnum undir uggum og náðu forystunni, 22:23.

Eftir það var leikurinn í járnum þar sem Norðmenn náðu eins marks forystu en Hollendingar jöfnuðu alltaf jafnharðan.

Frábær endasprettur Norðmanna þar sem liðið skoraði þrjú mörk í röð og kom sér þannig í 29:26 forystu gerði hins vegar út af við Hollendinga, sem skoruðu eitt sárabótarmark í blálokin.

Góður tveggja marka sigur því staðreynd og norsku stúlkurnar undir handleiðslu Þóris líta vel út og freista þess að vinna sitt þriðja ólympíugull.

Nora Mørk var markahæst í liði Noregs með níu mörk og Inger Smits var markahæst Hollendinga með sjö mörk.

Í B-riðlinum komst Ungverjaland á blað með frábærum 29:25 sigri á Spáni, sem þýðir að liðið eygir enn von um að komast í fjórðungsúrslitin þrátt fyrir að vera á botni riðilsins með aðeins 2 stig.

Petra Vámos og Katrin Klujber voru markahæstar Ungverja með sex mörk hvor og markahæst í liði Spánverja var Carmen Martín með fimm mörk.

mbl.is