Aldrei unnið alslemmu en hirti gullið

Alexander Zverev glaðbeittur með ólympíugullið sitt.
Alexander Zverev glaðbeittur með ólympíugullið sitt. AFP

Þjóðverjinn Alexander Zverev er ólympíumeistari í einliðaleik í tennis karla eftir þægilegan sigur gegn Rússanum Karen Khachanov á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Zverev kom flestum á óvart þegar hann sló út Serbann sigurstranglega, Novak Djokovic, í undanúrslitunum á dögunum og átti ekki í vandræðum með Khachanov í morgun.

Þjóðverjinn var við stjórn allan tímann og vann fyrsta sett 6:3 og annað sett 6:1.

Zverev, sem er 24 ára gamall og er um þessar mundir númer fimm á heimslistanum, hefur ekki enn þá unnið alslemmu, þ.e. stórmót, þótt hann hafi unnið nokkur mót á ferlinum, þar á meðal fjögur Masters 1000 mót.

Með ólympíugull í farteskinu fer þó eflaust að styttast í það en síðasta stórmót ársins, Opna bandaríska, hefst í lok mánaðarins. Þar freistar Zverev þess að bæta árangur sinn frá síðasta ári þegar hann lenti í öðru sæti á mótinu.

mbl.is