Lærisveinar Alfreðs í fjórðungsúrslitin

Juri Knorr í leiknum gegn Brasilíu í dag.
Juri Knorr í leiknum gegn Brasilíu í dag. AFP

Þýskaland undir stjórn Alfreðs Gíslasonar er búið að tryggja sér sæti í fjórðungsúrslitunum í handknattleik karla með öruggum 29:25 sigri gegn Brasilíu í A-riðlinum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Eftir hnífjafna byrjun náðu Brasilíumenn forystunni og nokkrum sinnum tveggja marka forystu um miðjan fyrri hálfleikinn.

Frábær endasprettur Þjóðverja í kjölfar þess að hafa lent 11:12 undir leiddi hins vegar til þess að liðið fór með fjögurra marka forystu, 16:12, til leikhlés eftir að hafa skorað fimm mörk í röð.

Eftirleikurinn reyndist auðveldur í síðari hálfleiknum og sigurinn aldrei í hættu þrátt fyrir fínan endasprett Brasilíumanna, og öruggur fjögurra marka sigur staðreynd.

Steffen Weinhold og Juri Knorr voru markahæstir Þjóðverja með sex mörk hvor. Leonardo Dutra Ferreira í liði Brasilíu var svo markahæstur í leiknum með sjö mörk.

Með sigrinum tryggði Þýskaland sér þriðja sætið í A-riðli og er þar með komið áfram í fjórðungsúrslitin, þar sem það mætir Egyptalandi á þriðjudaginn.

Juri Knorr fær óblíðar móttökur frá Brasilíumönnum í leiknum í …
Juri Knorr fær óblíðar móttökur frá Brasilíumönnum í leiknum í dag. AFP
mbl.is