Lærisveinar Arons í fjórðungsúrslit eftir hjálp frá Degi

Aron Kristjánsson, þjálfari Barein.
Aron Kristjánsson, þjálfari Barein. AFP

Barein, sem Aron Kristjánsson þjálfar, er komið áfram í fjórðungsúrslitin í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir að heimamenn í Japan, sem Dagur Sigurðsson þjálfar, unnu magnaðan sigur á Portúgal í lokaumferð B-riðilsins í nótt.

Barein endar í fjórða sæti riðilsins með aðeins tvö stig, sem Portúgal og Japan gera líka, en þau sitja eftir.

Þar sem Barein stóð best að vígi í innbyrðis viðureignum liðanna þriggja eftir tveggja marka sigur á Japan í síðustu viku fer liðið áfram í fjórðungsúrslit á sínum fyrstu Ólympíuleikum.

Japan sigraði Portúgal með minnsta mun, 31:30, eftir æsispennandi viðureign, og tryggði Barein þar með áfram með sigurmarki í blálokin.

Renno Takasuda var markahæstur Japana með sex mörk en fjórir leikmenn Portúgala voru jafn markahæstir, allir með fjögur mörk.

Barein átti leik gegn Egyptum eftir að leik Japana og Portúgala lauk og var því þegar komið áfram.

Skemmst er frá því að segja að Barein steinlá, 20:30, þegar Egyptaland tryggði sér annað sæti B-riðilsins.

Barein mun mæta sigurvegurum A-riðilsins, Frakklandi í fjórðungsúrslitunum.

mbl.is