Neitaði að yfirgefa hringinn eftir að hafa verið dæmdur úr leik

Mourad Aliev þrumu lostinn yfir ákvörðun dómaranna.
Mourad Aliev þrumu lostinn yfir ákvörðun dómaranna. AFP

Franski boxarinn Mourad Aliev var dæmdur úr leik í fjórðungsúrslitunum í ofurþungavigt í boxi karla eftir að hafa endurtekið skallað Bretann Frazer Clarke í bardaga þeirra á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt.

Aliev var brjálaður yfir ákvörðun dómaranna, kýldi í upptökuvél  og neitaði svo að yfirgefa hringinn í mótmælaskyni. Sat hann inni í hringnum í um 20 mínútur.

Aliev var með yfirhöndina í bardaganum þegar dómurunum þótti nóg um í kjölfar þess að skallar Frakkans höfðu leitt til þess Clarke blóðgaðist í kringum bæði augu.

Aliev situr ósáttur í hringnum.
Aliev situr ósáttur í hringnum. AFP

Þrátt fyrir mótmælin þurfti Aliev að svara kalli náttúrunnar og tók sér klósettpásu áður en hann sneri aftur 10 mínútum síðar til þess að halda áfram að sitja fýldur rétt fyrir utan hringinn.

Clarke er þar með kominn í undanúrslitin í ofurþungavigtinni.

„Þetta var skalli, þetta er í fjórða sinn sem ég berst við hann og í fimmta sinn sem ég fæ skurð. Ekki einn þeirra hefur verið vegna hnefahöggs.

Ég veit ekki hvort maður ætti að kalla þetta tilviljun eða ekki en svona á ekki að leika íþróttina. Ég er ekki að segja að hann hafi gert þetta viljandi en svona hlutir gerast,“ sagði Clarke í samtali við Eurosport eftir bardagann í nótt.

mbl.is