Noregur vann toppliðið – auðvelt hjá Spáni

Sander Sagosen skorar eitt af sjö mörkum sínum gegn Frakklandi …
Sander Sagosen skorar eitt af sjö mörkum sínum gegn Frakklandi í morgun. AFP

Noregur tryggði sér sæti í fjórðungsúrslitunum í handknattleik karla með fræknum 32:29-sigri gegn Frakklandi, toppliði A-riðilsins, á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun. Spánn vann þá öruggan 36:27-sigur gegn Argentínu.

Frakkland var þegar búið að vinna riðilinn fyrir leikinn en Noregur átti möguleika á að falla úr keppni með óhagstæðum úrslitum í leik Þýskalands og Brasilíu, sem hefst klukkan 10.30 í dag.

Leikurinn var hnífjafn til að byrja með áður en Norðmenn náðu undirtökunum og komust mest fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleik, 13:9.

Frábær endasprettur Frakka í hálfleiknum þýddi þó að staðan var jöfn í leikhléi, 15:15.

Áfram var mikið jafnræði með liðunum í síðari hálfleik þar sem Frakkar komust til að mynda þrisvar einu marki yfir.

Þegar síðari hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður komst Noregur í þriggja marka forystu, 27:24, og lét hana ekki af hendi það sem eftir lifði leiks.

Frakkar voru ekkert á því að gefast upp og minnkuðu muninn í aðeins eitt mark, 30:29, en Norðmenn luku leiknum með besta móti, skoruðu síðustu tvö mörkin og tryggðu sér þannig þriggja marka sigur.

Noregur er eftir sigurinn í þriðja sæti riðilsins en Þýskaland gæti með sigri gegn Brasilíu á eftir hirt það af þeim.

Sander Sagosen var enn sem áður markahæstur í liði Norðmanna og skoraði sjö mörk í morgun. Henri Descat var markahæstur Frakka með fimm mörk.

Spánn endar í öðru sæti riðilsins eftir auðveldan sigur gegn Argentínu, sem lýkur keppni án stiga í sjötta og neðsta sæti.

Staðan var 17:12 í leikhléi og Spánverjar bættu bara í í síðari hálfleiknum þar sem níu marka sigur varð niðurstaðan.

Aleix Gómez var markahæstur Spánverja með sex mörk og Ignacio Pizarro markahæstur Argentínumanna með fimm mörk.

mbl.is