Bandaríkin tryggðu sér sigur í riðlinum

A'ja Wilson stekkur upp að körfunni í leiknum í morgun.
A'ja Wilson stekkur upp að körfunni í leiknum í morgun. AFP

Bandaríska kvennalandsliðið í körfuknattleik vann góðan 93:82 sigur gegn Frakklandi í lokaumferð B-riðilsins í körfuknattleik á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun. Bandaríkin unnu þar með riðilinn og enda með fullt hús stiga.

A’ja Wilson var stigahæst í leiknum með 22 stig og tók hún einnig sjö fráköst. Breanna Stewart átti einnig mjög góðan leik og skoraði 17 stig, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Stigahæst í liði Frakka var Endy Miyem með 15 stig.

Frakkland endar í þriðja sæti en verður annað af þeim tveimur liðum sem komast áfram með bestan árangur í því sæti af riðlunum þremur.

Japan tryggði sér annað sætið í riðlinum með auðveldum 102:83 sigri gegn Nígeríu.

Saki Hayashi var stigahæst Japana með 23 stig og Victoria Macaulay var stigahæst í liði Nígeríukvenna með 18 stig.

Bandaríkin, Japan og Frakkland eru því öll komin áfram í fjórðungsúrslitin á leikunum á meðan Nígería hefur lokið keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert