Féll úr keppni en fagnaði með andstæðingi

Viktoriya Tkachuk fagnar ásamt Söru Slott Petersen, Yadisleidis Pedroso og …
Viktoriya Tkachuk fagnar ásamt Söru Slott Petersen, Yadisleidis Pedroso og Leu Sprunger. AFP

Danski spretthlauparinn Sara Slott Petersen sýndi af sér afar fallega og íþróttamannslega hegðun í undanúrslitum 400 metra grindahlaups kvenna á Ólympíuleikunum í dag.

Petersen, sem vann til silfurverðlauna í greininni á leikunum í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 2016, féll sjálf úr leik eftir að hafa rekist í eina grindina og dottið.

Hún stóð upp og kláraði hlaupið en var dæmd úr leik.

Petersen leit þá til Viktoriyu Tkachuk, andstæðings síns frá Úkraínu, sem beið milli vonar og ótta eftir að fá að vita hvort tími hennar væri nægilega góður til þess að tryggja henni sæti í úrslitunum, en hún lenti í þriðja sæti í sínum riðli í undanúrslitunum.

Tkachuk var ansi stressuð og grét er hún leit upp á stóra skjáinn á leikvanginum. Í þann mund sem Petersen ætlaði að reyna að róa hana niður fékkst það staðfest að Tkachuk væri komin áfram í úrslitin og sú danska fagnaði því innilega með Úkraínukonunni, sem féll til jarðar af gleði.

Lea Sprunger frá Sviss og Yadisleidis Pedroso frá Ítalíu, sem komust hvorug áfram, ákváðu skömmu síðar að taka þátt í fagnaðarlátunum og óskuðu Tkachuk einnig til hamingju og því sannur íþróttaandi sem sveif yfir vötnum.

Spretthlaupararnir samgleðjast Tkachuk.
Spretthlaupararnir samgleðjast Tkachuk. AFP
mbl.is