Kanada sló heimsmeistarana út og fer í úrslit

Jessie Fleming (t.v.) fagnar sigurmarki sínu ásamt varamönnum Kanada.
Jessie Fleming (t.v.) fagnar sigurmarki sínu ásamt varamönnum Kanada. AFP

Kvennalandslið Kanada í knattspyrnu er búið að tryggja sér sæti í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Tókýó eftir að hafa innbyrt 1:0 sigur gegn nágrönnum sínum í Bandaríkjunum í undanúrslitunum í morgun.

Leikurinn var afar jafn eins og við mátti búast og reyndist mark úr vítaspyrnu skilja liðin að þegar flautað var til leiksloka.

Á 72. mínútu braut Tierna Davidson á Deanne Rose innan vítateigs og vítaspyrna því dæmd.

VAR tók sér nokkrar mínútur til þess að meta hvort Davidson hafi raunveruleg gerst brotleg og komst að þeirri niðurstöðu að svo væri.

Á vítapunktinn steig Jessie Fleming og skoraði af miklu öryggi á 75. mínútu fram hjá Adriönnu Franch, varamarkmanni Bandaríkjanna sem hafði komið inn á fyrir hina meiddu Alyssu Naeher í fyrri hálfleik.

Bandaríkjakonur gáfust ekki upp og komust nokkrum sinnum nálægt því að jafna metin.

Á 86. mínútu átti hin þaulreynda Carli Lloyd til að mynda þrumuskalla eftir frábæra fyrirgjöf Megan Rapinoe en hann fór í þverslána og yfir markið.

Heimsmeisturum Bandaríkjanna auðnaðist hins vegar ekki að finna leið fram hjá sterkri vörn og markverði Kanadakvenna og Kanada er því komið áfram í úrslit, þar sem liðið mun annaðhvort mæta Ástralíu eða Svíþjóð.

Undanúrslitaleikur Ástrala og Svía hefst klukkan 11.

Sigur Kanada var sá fyrsti gegn Bandaríkjunum í rúm 20 ár, eða síðan í mars árið 2001, og aðeins sá fjórði í 62 viðureignum milli nágrannana í sögunni.

mbl.is