Norðmenn gjörsigruðu heimakonur – fjórðungsúrslitin ljós

Marit Malm Frafjord skorar eitt marka sinna gegn Japan í …
Marit Malm Frafjord skorar eitt marka sinna gegn Japan í dag. AFP

Noregur, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, átti ekki í neinum vandræðum með Japan þegar liðin mættust í lokaumferð A-riðilsins í handknattleik kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

12 marka sigur varð raunin þar sem norsku stúlkurnar skoruðu 37 mörk á móti 25 mörkum heimakvenna í Japan.

Staðan í hálfleik var 16:11 og þær norsku hertu enn frekar tökin í síðari hálfleiknum.

Marit Malm Frafjord var markahæst Norðmanna með sex mörk og í liði Japana voru Mana Ohyama og Aya Yokoshima markahæstar með fimm mörk hvor.

Í A-riðlinum mættust einnig Holland og Svartfjallaland í hörkuleik, þar sem Holland vann með einu marki, 30:29, og tryggði sér þar með annað sæti riðilsins.

Hollendingar voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddu með fimm mörkum, 17:12, í leikhléi.

Svartfellingar áttu hins vegar frábæran síðari hluta síðari hálfleiks og minnkuðu muninn í sífellu, en komust þó ekki nær Hollendingum en einu marki. Þriðja sætið því staðreynd fyrir Svartfjallaland.

Jovanka Radicevic fór fyrir Svartfellingum og skoraði átta mörk en Laura van der Heijden var markahæst Hollendinga með fimm mörk.

Fjórðungsúrslitin eru því orðin ljós:

Noregur – Ungverjaland

Svartfjallaland – Rússland

Frakkland – Holland

Svíþjóð – Suður-Kórea

Leikirnir fara allir fram aðfaranótt og að morgni 4. ágúst næstkomandi.

mbl.is