Tryggði sér ólympíugull í fyrsta kasti á fyrstu leikunum

Valarie Allman hrósaði sigri í kringlukasti kvenna.
Valarie Allman hrósaði sigri í kringlukasti kvenna. AFP

Bandaríkjakonan Valarie Allman reyndist hlutskörpust í úrslitum kvenna í kringlukasti á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag og tryggði sér ólympíugull með stæl.

Allir keppendur fengu sex kasttilraunir eins og venja er en hin 26 ára gamla Allman gerði sér lítið fyrir og kastaði kringlunni 68,98 metra í fyrstu tilraun og gaf þar með sannarlega tóninn.

Þetta frábæra fyrsta kast hennar reyndist nógu langt til sigurs og fyrsta gullið sem Allman vinnur til á stórmóti á ferli sínum kom á hennar fyrstu Ólympíuleikum.

Í öðru sæti lenti Þjóðverjinn Kristin Pudenz, sem kastaði kringlunni 66,86 metra og tryggði sér silfurverðlaun.

Í þriðja sæti varð svo Yaime Perez frá Kúbu, sem kastaði 65,72 metra og nældi þar með í bronsverðlaunin.

mbl.is