Ungverjar tryggðu sér sæti í fjórðungsúrslitunum

Ungverjar fagna sigrinum innilega.
Ungverjar fagna sigrinum innilega. AFP

Ungverjaland vann frækinn 26:23 sigur gegn toppliði Svíþjóðar í B-riðlinum í handknattleik kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Með sigrinum hrifsuðu Ungverjar fjórða og síðasta sætið af Spánverjum sem sitja eftir með sárt ennið í fimmta sætinu með jafn mörg stig en lakari árangur í innbyrðis viðureignum eftir 31:34 tap gegn Rússlandi í morgun.

Óhætt er að segja að Ungverjar hafi dreift markaskorun systurlega á milli sín, þar sem fimm leikmenn liðsins skoruðu fjögur mörk hver.

Í liði Svía, sem var þegar búið að vinna riðilinn, voru Jenny Carlson og Nathalie Hagman markahæstar með fimm mörk hvor.

Úr B-riðlinum fara því Svíar, Rússar, Frakkar og Ungverjar áfram í fjórðungsúrslitin. Frakkar unnu Brasilíukonur örugglega, 29:22, í morgun.

í A-riðlinum eygir Suður-Kórea góða von um að komast í fjórðungsúrslitin eftir 31:31 jafntefli gegn Angóla í morgun.

Japan getur hrifsað fjórða og síðasta sætið, sem gefur sæti í fjórðungsúrslitunum, af nágrönnum sínum með sigri gegn Noregi síðar í dag, en það verður ærið verkefni gegn ógnarsterkum Norðmönnum undir stjórn Þóris Hergeirssonar.

Noregur, Holland og Svartfjallaland eru komin áfram og góðar líkur verða að teljast á því að Suður-Kórea taki síðasta sætið.

mbl.is