Vann sitt fyrsta gull af þremur mögulegum

Sifan Hassan fagnar sigrinum í 5.000 metra hlaupi í dag.
Sifan Hassan fagnar sigrinum í 5.000 metra hlaupi í dag. AFP

Langhlauparinn Sifan Hassan frá Hollandi kom tæpum tveimur sekúndum á undan næstu konu þegar hún tryggði sér ólympíugull í úrslitum 5.000 metra hlaups kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Hassan hljóp á 14:36,79 mínútum á meðan Hellen Obiri frá Kenýa tók silfurverðlaunin með því að hlaupa á 14.38,36 mínútum.

Eþíópíubúinn Gudaf Tsegay kom skammt á eftir Obiri, á 14:38,87 mínútum, og nældi þar með í bronsverðlaun.

Hin 28 ára gamla Hassan er fædd í Eþíópíu en fékk hæli sem flóttamaður í Hollandi árið 2008, þá 15 ára gömul.

Gullið í dag var hennar fyrsta á Ólympíuleikum en Hassan á enn eftir að keppa í úrslitum tveggja greina á leikunum og freistar þess þannig að bæta tveimur ólympíugullum til viðbótar í safnið.

Mun hún keppa í undanúrslitum og svo úrslitum, ef hún kemst áfram, í 1.500 metra hlaupi á föstudaginn og keppir svo í úrslitum í 10.000 metra hlaupi á laugardaginn.

Hassan hefur sjálf sagst stefna að því að vinna gull í öllum þremur greinunum, sem væri einstætt afrek.

mbl.is