Ástralir gjörsigruðu Argentínumenn

Patty Mills í baráttu við Marcos Delia í leiknum í …
Patty Mills í baráttu við Marcos Delia í leiknum í dag. AFP

Ástralía átti ekki í nokkrum einustu vandræðum með Argentínu þegar liðin mættust í fjórðungsúrslitum í körfuknattleik karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Ekki virtist stefna í þetta auðveldan sigur hjá Áströlum þegar Argentínumenn leiddu, 18:22, að loknum fyrsta leikhluta.

Ástralar tóku við sér og náðu yfirhöndinni í öðrum leikhluta en fyrri hálfleikurinn reyndist ansi jafn á heildina litið þar sem staðan var 39:33, Áströlum í vil, í leikhléi.

Ástralar bættu aðeins í í þriðja leikhluta og leiddu með 11 stigum, 60:48, að honum loknum.

Eitthvað hefur gerst í fjórða og síðasta leikhluta því Ástralar gjörsamlega kjöldrógu Argentínumenn, skoruðu 37 stig gegn aðeins 11 og unnu að lokum 38 stiga stórsigur, 97:59.

Ærið verkefni bíður hins vegar Ástrala í undanúrslitunum, þar sem liðið mun mæta fimmtánföldum og ríkjandi ólympíumeisturum Bandaríkjanna.

Ástralar unnu að vísu Bandaríkin í vináttulandsleik í síðasta mánuði, 93:81, þegar liðin undirbjuggu sig fyrir Ólympíuleikana, og gætu því hæglega gert þeim skráveifu, þótt Bandaríkin hafi vissulega spilað betur með hverjum leiknum frá þessu tapi.

Stigahæstur Ástrala í leiknum í dag var Patty Mills, leikmaður San Antonio Spurs í NBA-deildinni, með 18 stig, og stigahæstur í liði Argentínu var Nicolás Laprovittola með 16 stig.

mbl.is