Frakkar í undanúrslit eftir góðan sigur

Rudy Gobert átti góðan leik í morgun.
Rudy Gobert átti góðan leik í morgun. AFP

Landslið Frakklands í körfuknattleik karla er búið að tryggja sér sæti í undanúrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir sterkan 84:75-sigur gegn Ítalíu í fjórðungsúrslitunum í morgun.

Leikurinn var æsispennandi stærstan hluta hans. Ítalir voru yfir, 20:25, að loknum fyrsta leikhluta og Frakkar aðeins einu stigi yfir í hálfleik, 43:42.

Í þriðja leikhluta náðu Frakkar undirtökunum og leiddu með 10 stigum, 63:53, að loknum þriðja leikhluta.

Í fjórða og síðasta leikhluta náðu Ítalir að minnka muninn í aðeins eitt stig, 66:65, og velgdu Frökkum undir uggum í kjölfarið.

Undir lok leiksins reyndust Frakkar hins vegar hlutskarpari og unnu að lokum góðan níu stiga sigur.

Simone Fontecchio var stigahæstur í leiknum með 23 stig fyrir Ítali og samherji hans, Danilo Gallinari, leikmaður Atlanta Hawks í NBA-deildinni, náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 21 stig og tók 10 fráköst.

Rudy Gobert, leikmaður Utah Jazz í NBA-deildinni, var stigahæstur Frakka með 22 stig, auk þess sem hann tók níu fráköst.

Frakkland mætir Slóveníu í undanúrslitum leikanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert