Heims- og ólympíumethafinn sigraði örugglega

Anita Wlodarczyk fagnar öruggum sigri sínum í dag.
Anita Wlodarczyk fagnar öruggum sigri sínum í dag. AFP

Pólski sleggjukastarinn Anita Wlodarczyk er ólympíumeistari í greininni þriðju leikana í röð eftir að hafa unnið með sannfærandi hætti í úrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Hún kastaði sleggjunni lengst 78,48 metra, tæplega einum og hálfum metra lengra en hin kínverska Wang Zheng, sem vann sér inn silfurverðlaun með því að kasta 77,03 metra.

Bronsverðlaunin féllu svo í skaut Malwinu Kopron, einnig frá Póllandi, sem kastaði 75,49 metra.

Wlodarczyk hefur nú hrósað sigri á þremur Ólympíuleikum í röð og setti ólympíumet á leikunum í Ríó í Brasilíu árið 2016 þegar hún kastaði 82,29 metra.

Hún setti svo heimsmet aðeins tveimur vikum eftir leikana árið 2016 þegar hún kastaði hvorki meira né minna en 82,98 metra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert