Heimsmetshafinn í sérflokki í stangarstökkinu

Armand Duplantis fagnar sigrinum í dag.
Armand Duplantis fagnar sigrinum í dag. AFP

Svíinn Armand Duplantis tryggði sér afar öruggan sigur í úrslitum stangarstökks karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Hann stökk þá 6,02 metra, sem dugði honum til þess að tryggja sér ólympíugull.

Duplantis reyndi einnig að slá eigið heimsmet, 6,18 metra, og komst grátlega nálægt því í fyrstu tilraun en rak bringspalirnar í rána á leiðinni niður þegar hann reyndi að stökkva yfir 6,19 metra.

Christian Nilsen frá Bandaríkjunum stökk næsthæst þegar hann fór yfir 5,97 metra, en mistókst í öllum þremur tilraunum þegar hann reyndi við 6,02 metra. Vann hann sér þannig inn silfurverðlaun.

Brasilíumaðurinn Thiago Braz, ólympíumethafi í greininni, sem stökk 6,03 metra á leikunum í Ríó í heimalandinu árið 2016, lenti í þriðja sæti og tryggði sér bronsverðlaun með því að stökkva yfir 5,87 metra.

Duplantis hefði væntanlega auðveldlega getað slegið ólympíumet Braz upp á 6,03 metra, en ákvað heldur að fara strax í að reyna við það að slá eigið heimsmet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert