Ótrúlegur Doncic og félagar halda áfram að skrifa söguna

Luka Doncic fagnar körfu í sigrinum gegn Þýskalandi í nótt.
Luka Doncic fagnar körfu í sigrinum gegn Þýskalandi í nótt. AFP

Ævintýri slóvenska landsliðsins í körfuknattleik karla, með stórstjörnuna Luka Doncic í broddi fylkingar, heldur áfram. Í nótt vann liðið öruggan 94:70-sigur á Þýskalandi í fjórðungsúrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó, fyrstu leikum liðsins í sögunni.

Sigurinn var aldrei í hættu þar sem Slóvenar höfðu yfirhöndina í þremur af fjórum leikhlutum.

Stigahæstur að þessu sinni í liði Slóveníu var Zoran Dragic, en hann skoraði 27 stig, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar að auki.

Doncic, leikmaður Dallas Mavericks í NBA-deildinni, stal þó senunni eins og oft áður. Hann náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 20 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók átta fráköst.

Doncic, sem er 22 ára gamall, hefur nú spilað 17 landsleiki fyrir hönd þjóðar sinnar og unnið þá alla, sem er ansi magnað afrek fyrir hann sjálfan og svo smáa þjóð, sem er auk þess að spila á sínum fyrstu Ólympíuleikum.

Stigahæstur í liði Þjóðverja var Maodo Lo með aðeins 11 stig.

Slóvenía er þar með komin í undanúrslitin þar sem liðið mætir sigurvegurunum úr viðureign Ítalíu og Frakklands, en þau etja nú kappi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert