Spánn í úrslit eftir sigurmark í framlengingu

Marco Asensio reif sig úr að ofan þegar hann fagnaði …
Marco Asensio reif sig úr að ofan þegar hann fagnaði sigurmarki sínu. AFP

Marco Asensio var hetja spænska karlalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið hafði sigur gegn heimamönnum í Japan í undanúrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar.

Útlit var fyrir að einnig þyrfti að grípa til vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram úrslit en Asensio kom í veg fyrir það þegar hann skoraði á 115. mínútu með glæsilegu skoti utarlega úr vítateignum hægra megin sem endaði í bláhorninu vinstra megin.

Þetta reyndist sigurmark leiksins og Spánverjar höfðu þannig betur, 1:0.

Spánn mætir Brasilíu í úrslitaleik Ólympíuleikanna laugardaginn 7. ágúst.

mbl.is