Spánn marði Svíþjóð í æsispennandi leik

Spánverjar fagna sigrinum í nótt.
Spánverjar fagna sigrinum í nótt. AFP

Landslið Spánar í handknattleik karla er búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Tókýó eftir að hafa unnið nauman 34:33 sigur gegn Svíþjóð í fjórðungsúrslitunum í nótt.

Spánverjar höfðu yfirhöndina til að byrja með en þegar leið á fyrri hálfleikinn tóku Svíar hann yfir og fóru með tveggja marka forystu, 18:20, til leikhlés.

Eftir að Svíar byrjuðu síðari hálfleikinn mjög vel og komust mest í fjögurra marka forystu, 23:27 og svo 25:29, tóku Spánverjar öll völd og skoruðu fimm mörk í röð.

Voru þeir þar með komnir í forystu í fyrsta sinn síðan mjög snemma í leiknum, 30:29.

Svíar jöfnuðu í 30:30 en Spánverjar skoruðu næstu þrjú mörk og komu sér þar með í afar álitlega stöðu mjög seint í leiknum.

Svíar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn niður í eitt mark en komust ekki nær og þurftu að sætta sig við eins marks tap.

Hampus Wanne átti stórleik í liði Svía og var markahæstur í leiknum með 10 mörk. Markahæstur Spánverja var Aleix Gómez með átta mörk.

Í undanúrslitunum mætir Spánn sigurvegaranum úr viðureign Danmerkur og Noregs í fjórðungsúrslitunum, en þau etja nú kappi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert