Þjóðverjinn tryggði sér gull í síðasta stökkinu

Malaika Mihambo fagnar mögnuðum sigri sínum í nótt.
Malaika Mihambo fagnar mögnuðum sigri sínum í nótt. AFP

Malaika Mihambo er ólympíumeistari í langstökki kvenna eftir æsilega keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt.

Bandaríkjakonan Brittney Reese var með yfirhöndina eftir að hafa lengst stokkið 6,97 metra og Ese Brume frá Nígeríu fylgdi fast á hæla hennar, einnig með stökk upp á 6,97 metra en lakari árangur þegar öll stökkin voru talin saman.

Mihambo gerði sér hins vegar lítið fyrir og stökk sjö metra í sjöttu og lokatilraun sinni en Reese og Brume auðnaðist ekki að bæta árangur sinn.

Mihambo tryggði sér þar með ólympíugull, Reese tók silfrið og Brume nældi í bronsverðlaun.

mbl.is