Thompson-Herah nældi í enn eitt ólympíugullið

Elaine Thompson-Herah fagnar sigrinum í dag.
Elaine Thompson-Herah fagnar sigrinum í dag. AFP

Jamaíkakonan Elaine Thompson-Herah er ólympíumeistari í 200 metra hlaupi kvenna eftir að hafa komið langfyrst í mark í úrslitum greinarinnar á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Um helgina varð hún sömuleiðis ólympíumeistari í 100 metra hlaupinu.

Thompson-Herah hljóp á 21,53 sekúndum og skákaði hinni 18 ára gömlu Christine Mboma frá Namibíu, og Bandaríkjakonunni Gabrielle Thomas.

Mboma kom í mark á 21,81 sekúndu og vann til silfurverðlauna á sínum fyrstu leikum og Thomas kom í mark á 21,87 sekúndum og krækti í bronsverðlaunin.

Thompson-Herah, sem er 29 ára gömul tókst með sigrinum í dag að endurtaka leikinn frá leikunum í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 2016, þar sem hún varð einnig ólympíumeistari í bæði 100 og 200 metra hlaupi.

Ólympíugull hennar eru þar með orðin fjögur talsins á ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert