Dramatískur sigur Ítala og heimsmet slegið

Ítalir unnu frækinn sigur og tryggðu sér ólympíugull.
Ítalir unnu frækinn sigur og tryggðu sér ólympíugull. AFP

Ítalska karlalandsliðið í hjólreiðum skákaði því danska á ögurstundu og sló í leiðinni heimsmet í úrslitunum í greininni á Ólympíuleikunum í morgun.

Danir virtust vera að koma fyrstir í mark þegar Filippo Ganna, heimsmeistari í einstaklingshjólreiðum, tók málin í sínar hendur og kom Ítölum fram fyrir þegar aðeins hálfur lokahringurinn var eftir.

Ganna brunaði í mark og tryggði Ítölum ólympíugull og setti liðið í leiðinni heims- og ólympíumet þegar það kom í mark á 3:42.032 mínútum á meðan Danir, sem hefðu sömuleiðis sett heims- og ólympíumet ef ekki væri fyrir Ítalina, hjóluðu á 3:42,198 mínútum og urðu því að sætta sig við silfurverðlaun.

Ástralir hirtu svo bronsverðlaunin með öruggum sigri gegn nágrönnum sínum á Nýja-Sjálandi, en ástralska liðinu tókst að „hringa“ Nýsjálendingana, það er fara meira en heilum hring fram úr þeim, og þar með var Áströlum dæmdur sigurinn.

mbl.is