Frakkar kjöldrógu Hollendinga – Leynaud mögnuð í markinu

Frakkar fagna stórsigrinum gegn Hollandi innilega.
Frakkar fagna stórsigrinum gegn Hollandi innilega. AFP

Franska kvennalandsliðið í handknattleik er komið áfram í undanúrslitin á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir stórsigur gegn Hollandi í fjórðungsúrslitunum í dag.

Hollenska liðið sá aldrei til sólar og var staðan 19:11, Frökkum í vil, í hálfleik.

Munurinn var þar með orðinn of mikill og þrátt fyrir talsvert jafnari leik í síðari hálfleik juku Frakkar forskot sitt aðeins og unnu að lokum frábæran tíu marka sigur, 32:22.

Frakkland mætir Svíþjóð í undanúrslitunum á föstudaginn.

Laura Flippes var markahæst í leiknum með sex mörk fyrir Frakka og Angela Malestein var markahæst Hollendinga með fimm mörk.

Maður leiksins var hins vegar markvörður Frakka, Amandine Leynaud, sem gerði sér lítið fyrir og varði rúmlega helming skota Hollendinga, 22 af 43 og var með 51 prósent markvörslu, sem er hreint mögnuð tölfræði.

mbl.is