Háspenna/lífshætta þegar heimakonur komust áfram

Hart barist í leiknum í morgun.
Hart barist í leiknum í morgun. AFP

Japan og Belgía mættust í mögnuðum körfuboltaleik í fjórðungsúrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun og þar höfðu heimakonur betur með minnsta mun eftir gífurlega spennuþrunginn leik.

Gífurlegt jafnræði var með liðunum allan leikinn. Hálfleikstölur voru 41:42, Belgum í vil.

Belgar voru sterkari í þriðja leikhluta og leiddu 61:68 að honum loknum.

Japanir áttu hins vegar frábæran fjórða og síðasta leikhluta og náðu að jafna metin. Liðin skiptust á að vera með forystuna og allt var í járnum síðustu mínúturnar.

Þegar aðeins rúmar 15 sekúndur voru eftir komst Japan yfir, 86:85. Belgía hafði fínan tíma til þess að tryggja sér sigurinn í lokasókninni en átti í erfiðleikum með flotta vörn Japana.

Boltinn barst að lokum til Kim Mestdagh sem reyndi tveggja stiga skot, það fór í hringinn og út og leiktíminn rann út.

Japan því komið í undanúrslit þar sem það mun mæta sigurvegaranum úr leik Spánar og Frakklands.

Emma Meesseman átti stórleik í liði Belga og náði tvöfaldri tvennu þegar hún skoraði 25 stig og tók 11 fráköst. Áðurnefnd Mestdagh skoraði 24 stig og tók sjö fráköst.

Stigahæst Japana var Yuki Miyazawa með 21 stig.

Belgar gríðarlega svekktir eftir að lokaskot þeirra geigaði.
Belgar gríðarlega svekktir eftir að lokaskot þeirra geigaði. AFP
mbl.is