Noregur í undanúrslitin eftir harða rimmu – Rússar örugglega áfram

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins, steinhissa á hliðarlínunni í leiknum …
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins, steinhissa á hliðarlínunni í leiknum í nótt. AFP

Norska kvennalandsliðið í handknattleik, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, tryggði sér í nótt sæti í undanúrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó með sigri gegn því ungverska í fjórðungsúrslitunum.

Leikurinn var öllu jafnari en búist hafði verið við en ungverska liðið skaut hinu ógnarsterka norska liði endurtekið skelk í bringu.

Þær byrjuðu betur og náðu mest þriggja marka forystu, 3:6, snemma leiks.

Þá tók við sterkur kafli hjá norsku stúlkunum og þær skoruðu sjö mörk í röð og komust þannig í 10:6-forystu.

Ungversku stúlkurnar unnu sig ágætlega inn í leikinn aftur og staðan að fyrri hálfleik loknum var 12:10.

Ungverjar jöfnuðu metin strax í 12:12 í síðari hálfleiknum og var gífurlegt jafnræði með liðunum.

Liðin skiptust á að komast yfir og Ungverjar náðu tveggja marka forystu, 17:19, og komust svo í 20:21 þegar skammt var eftir af leiknum.

Magnaður lokakafli norsku stúlknanna þar sem þær skoruðu fimm mörk í röð þýddi hins vegar að þær náðu góðri forystu, 25:21, áður en bæði lið bættu við einu marki hvort og lokatölur því 26:22.

Kari Dale var markahæst í liði Noregs með sjö mörk og Szandra Szollosi-Zacsik markahæst Ungverja með fimm mörk.

Fyrr í nótt mættust svo Rússland og Svartfjallaland í fjórðungsúrslitunum þar sem Rússar höfðu öruggan sigur, 32:26.

Staðan var 17:15 í hálfleik en í síðari hálfleik gengu Rússar á lagið og unnu svo þægilegan sigur.

Jovanka Radicevic í liði Svartfjallalands fór á kostum og skoraði 10 mörk og liðsfélagi hennar Durdina Jaukovic lék einnig frábærlega og skoraði átta mörk.

Anna Vyakhireva átti þá frábæran leik í liði Rússa og skoraði átta mörk. Anna Sedoykina í marki Rússa lék auk þessa frábærlega og varði 13 af 34 skotum sem hún fékk á sig, sem gerir 38 prósent markvörslu.

Noregur og Rússland mætast því í undanúrslitum leikanna á föstudaginn.

mbl.is