Ævintýrið úti eftir magnaðan leik – fyrsta tap Doncic

Hetja Frakka, Nicolas Batum, huggar Luka Doncic í leikslok.
Hetja Frakka, Nicolas Batum, huggar Luka Doncic í leikslok. AFP

Frakkland er komið í úrslitaleikinn í körfuknattleik karla á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir ótrúlegan 90:89 sigur gegn Slóveníu í undanúrslitunum í dag.

Eins og vænta mátti var mikið jafnræði með liðunum. Slóvenar náðu að vísu mest átta stiga forystu í fyrsta leikhluta, 25:17.

Frakkarnir tóku þó vel við sér og náðu að minnka muninn í tvö stig, 29:27, áður en leikhlutinn var úti.

Í öðrum leikhluta var áfram allt í járnum og leiddu Slóvenar enn með aðeins tveimur stigum þegar flautað var til leikhlés, 44:42.

Áfram var gífurlegt jafnræði með liðunum og var það raunin allt til loka.

Frakkar voru yfir, 90:85, þegar ein mínúta var eftir af leiknum. Slóvenar tóku leikhlé og Klemen Prepelic fékk eitt vítaskot nokkrum sekúndum síðar, sem hann setti niður.

Frakkar fóru í sókn en misstu boltann strax eftir þegar Evan Fournier fékk dæmt á sig sóknarbrot, en hann ýtti þá Prepelic af krafti í gólfið og fékk dæmda sína fimmtu villu og var þar með útilokaður frá leiknum.

Í sókninni í kjölfarið kom Luka Doncic boltanum á Prepelic sem skoraði glæsilega þriggja stiga körfu.

Frakkar tóku þá leikhlé en í sókninni sem fylgdi geigaði skot Nando de Colo.

Staðan 90:89 og Slóvenar höfðu sjö sekúndur til þess að skora tvö stig og vinna leikinn. Allt kom þó fyrir ekki þegar títtnefndur Prepelic reyndi að brjóta sér leið í átt að körfunni, taldi sig vera kominn í auðvelt „lay-up“ færi en þá mætti Nicolas Batum og blokkaði skotið, sló boltanum í spjaldið, Rudy Gobert náði boltanum og leiktíminn rann út.

Ótrúlegar lokamínútur þar sem Frökkum tókst að lokum að sigra með minnsta mögulega mun og eru komnir í úrslitaleikinn gegn Bandaríkjunum.

De Colo var stigahæstur í leiknum með 25 stig fyrir Frakka og samherji hans Fournier skoraði 23 stig.

Í liði Slóvena fór snillingurinn Doncic fyrir sínum mönnum og náði þrefaldri tvennu. Skoraði hann 16 stig, tók 10 fráköst og gaf 18 stoðsendingar.

Stigahæstir Slóvena voru svo Mike Tobey með 23 stig og Prepelic með 17.

Um var að ræða fyrstu Ólympíuleika Slóveníu og var tapið í dag það fyrsta hjá Doncic, sem hefur spilað 18 landsleiki, unnið 17 þeirra og tapaði núna þeim fyrsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert