Frábær þriðji leikhluti tryggði Bandaríkin í úrslit

Kevin Durant og Dante Exum eigast við upp við körfuna …
Kevin Durant og Dante Exum eigast við upp við körfuna í nótt. AFP

Bandaríkin og Ástralía mættust í undandúrslitunum í körfuknattleik karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt. Kevin Durant og Devin Booker fóru fyrir bandaríska liðinu sem gerði út um leikinn í þriðja leikhluta.

Ástralir byrjuðu betur og leiddu 18:24 eftir fyrsta leikhluta og voru sömuleiðis með nauma forystu í leikhléi, 42:45.

Í þriðja leikhluta snerist taflið hins vegar við svo um munaði. Bandaríkjamenn fóru á kostum og skoruðu 32 stig gegn aðeins 10 hjá Áströlum og komu sér þannig í frábæra stöðu, 74:55, fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Skaðinn var skeður fyrir Ástrali sem náðu að halda í við Bandaríkin í síðasta leikhlutanum en gátu ekki minnkað muninn. Lokatölur 97:78, Bandaríkjunum í vil, og liðið þar með komið í úrslitaleikinn þar sem það mætir annað hvort Frakklandi eða Slóveníu.

Kevin Durant átti góðan leik í liði Bandaríkjanna er hann skoraði 23 stig og tók níu fráköst. Skammt undan var Devin Booker með 20 stig.

Í liði Ástrala var Patty Mills stigahæstur með 15 stig og Dante Exum skoraði 14 stig.

mbl.is