Frakkar í úrslit eftir góðan endasprett

Frakkar fagna sigrinum í morgun.
Frakkar fagna sigrinum í morgun. AFP

Franska landsliðið í handknattleik karla er komið í úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir sterkan 27:23 sigur á Egyptalandi í undanúrslitunum í morgun.

Þrátt fyrir lokatölurnar var gífurlegt jafnræði með liðunum lengst af. Egyptar byrjuðu frábærlega og komust í 1:5 forystu og svo 4:7.

Frakkar vöknuðu þá af værum blundi og skoruðu næstu fjögur mörk og komust í forystu í fyrsta sinn í leiknum.

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var allt í járnum og staðan 13:13 að honum loknum.

Frakkar náðu gjarna forystunni í byrjun síðari hálfleiks en Egyptar voru alltaf skammt undan og jöfnuðu metin til að mynda í 17:17 og 18:18.

Eftir það kom hins vegar góður kafli hjá Frökkum sem lagði grunninn að sigrinum, en þá skoruðu þeir þrjú mörk í röð og komust í 21:18.

Þeir bættu bara í og komust mest í fimm marka forystu, 27:22, áður en Egyptar skoruðu síðasta mark leiksins.

Lokatölur því 27:23 og Frakkland mun mæta Spáni eða Danmörku í úrslitaleiknum.

Vincent Gerard átti stórleik í marki Frakka og varði 17 af þeim 39 skotum sem hann fékk á sig, sem gerir 44 prósent markvörslu.

Markahæstir í liði Frakka voru Dika Mem og Hugo Descat, báðir með fimm mörk.

Hjá Egyptalandi voru Yahia Omar og Ahmed Elahmar markahæstir, einnig með fimm mörk hvor.

mbl.is