Fyrsta gullið á stórmóti kom á Ólympíuleikunum

Massimo Stano fagnar með því að bíta í gullverðlaunapening sinn …
Massimo Stano fagnar með því að bíta í gullverðlaunapening sinn í morgun. AFP

Ítalinn Massimo Stano er ólympíumeistari í 20 kílómetra göngu karla eftir að hafa komið fáeinum sekúndum á undan heimamanninum Koki Ikeda í úrslitum greinarinnar á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Stano kom í mark á einni klukkustund, 21 mínútu og fimm sekúndum og tryggði sér ólympíugullið á meðan Ikeda var skammt undan og kom í mark á einni klukkustund, 21 mínútu og 14 sekúndum, sem nægði til silfurverðlauna.

Landi Ikeda, Toshikazu Yamanishi, varð þriðji með því að koma í mark á einni klukkustund, 21 mínútu og 28 sekúndum, og vann þar með til bronsverðlauna.

Stano, sem er 29 ára gamall, hafði aldrei áður unnið til gullverðlauna á stórmóti en hafði unnið til silfur- og bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu í göngu árið 2018 og silfurverðlauna í liðakeppni á Evrópumeistaramótinu í Podebrady í Tékklandi fyrr á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert