Gullið til Bahama

Steven Gardiner fagnar á skemmtilegan hátt eftir að hann vann …
Steven Gardiner fagnar á skemmtilegan hátt eftir að hann vann sitt fyrsta ólympíugull. AFP

Steven Gardiner, spretthlaupari frá Bahama-eyjum, kom fyrstur í mark og vann þannig frækinn sigur í úrslitum 400 metra hlaups karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Gardiner er ríkjandi heimsmeistari í greininni eftir að hafa unnið gull á HM í Doha í Katar árið 2019 og vann sannfærandi sigur í dag þegar hann hljóp á 43,85 sekúndum og tryggði sér sitt fyrsta ólympíugull.

Áður hafði hann unnið bronsverðlaun á leikunum í Ríó í Brasilíu árið 2016, en þá í 4x400 metra boðhlaupi.

Kólumbíumaðurinn Anthony Zambrano nældi í silfurverðlaun þegar hann kom annar í mark á 44,08 sekúndum.

Kirani James frá Grenada endaði svo í þriðja sæti, hljóp á 44, 19 sekúndum og tryggði sér þannig bronsverðlaun.

mbl.is