Kúbverskur flóttamaður vann gull fyrir Portúgal á sínum fyrstu leikum

Pedro Pichardo fagnar sigrinum í nótt, umvafinn portúgalska fánanum.
Pedro Pichardo fagnar sigrinum í nótt, umvafinn portúgalska fánanum. AFP

Pedro Pichardo, Kúbverji sem keppir fyrir hönd Portúgals, er ólympíumeistari í þrístökki karla eftir að hafa stokkið lengst allra í úrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt.

Pichardo stökk 17,98 metra og setti um leið landsmet í Portúgal. Stökkið reyndist nóg til að tryggja gullverðlaunin á hans fyrstu Ólympíuleikum á ferlinum.

Í öðru sæti lenti Zhu Yaming frá Kína, en hann stökk 17,57 metra og tók silfurverðlaun, á meðan Fabrice Zango nældi í bronsverðlaun.

Pichardo er 28 ára gamall, borinn og barnfæddur Kúbverji sem keppti fyrir hönd heimalandsins allt fram til ársins 2017.

Í apríl það ár lét hann sig hverfa af fundi kúbverska frjálsíþrótta landsliðsins í Stuttgart í Þýskalandi þar sem hann vildi ekki búa lengur í heimalandinu.

Dúkkaði hann upp nokkrum dögum síðar í Portúgal og skömmu síðar, í lok apríl árið 2017, samdi Pichardo við lið Benfica og hóf að keppa fyrir þeirra hönd.

Seint á árinu 2017 öðlaðist hann svo portúgalskan ríkisborgararétt og hefur keppt fyrir hönd þjóðarinnar síðan. Tók hann þátt á sínu fyrsta stórmóti fyrir Portúgal á heimsmeistaramótinu í Doha í Katar árið 2019, þar sem hann lenti í fjórða sæti.

Fyrr í ár varð hann svo Evrópumeistari innanhúss á Evrópumeistaramótinu í Torun í Póllandi.

mbl.is