Stórkostlegur Hansen leiddi Dani í úrslit

Mikkel Hansen fagnar einu af 12 mörkum sínum í dag.
Mikkel Hansen fagnar einu af 12 mörkum sínum í dag. AFP

Danska karlalandsliðið í handknattleik tryggði sér í dag sæti í úrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó með sterkum 27:23 sigri gegn því spænska. Stórstjarnan Mikkel Hansen átti sannkallaðan stórleik í liði Dana.

Heims- og ólympíumeistarar Dana voru við stjórn allan leikinn og komust Spánverjar aldrei yfir í honum.

Í fyrri hálfleik náðu Spánverjar nokkrum sinnum að jafna metin en staðan í hálfleik var 14:10, Danmörku í vil.

Nokkrum sinnum komust Spánverjar nálægt Dönum en náðu þó mest að minnka muninn í eitt mark.

Á lokasprettinum reyndust Danir of sterkir. Eftir að Spánverjar gerðu enn eina tilraunina til þess að jafna metin og minnkuðu muninn niður í eitt mark, 23:22, áttu Danir mjög góðan endasprett þar sem þeir skoruðu fjögur mörk gegn einu og fjögurra marka sigur því staðreynd.

Hansen skoraði hvorki meira né minna en 12 mörk og var langmarkahæstur í leiknum. Mathias Gidsel kom næstur á eftir honum með fimm mörk.

Í liði Spánverja voru Alex Dujshebaev og Adria Figueras markahæstir, báðir með fimm mörk.

Niklas Landin lék vel í marki Dana og var með 38 prósent markvörslu. Gonzalo Pérez de Vargas átti sömuleiðis flottan leik og var með 33 prósent markvörslu.

Danir munu mæta Frökkum í úrslitaleiknum í hádeginu á laugardaginn. Um morguninn sama dag keppa Egyptar og Spánverjar um bronsverðlaunin.

mbl.is