Semur lag fyrir söngvakeppnina á milli sundferða í Tókýó

Már Gunnarsson situr ekki auðum höndum milli sundgreina í Tókýó.
Már Gunnarsson situr ekki auðum höndum milli sundgreina í Tókýó. mbl.is/Unnur Karen

Sund- og tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson hefur ekki setið auðum höndum í Ólympíuþorpinu á milli þess sem hann hefur keppt í þremur greinum á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó að undanförnu.

Eins og Már sagði í viðtali við mbl.is eftir eina keppnina á dögunum þá hefur hann meðal annars nýtt lausar stundir í Tókýó til að vinna að lagi sem hann ætlar að senda í Söngvakeppni sjónvarpsins í vetur.

Eftir að hann keppti í 200 metra fjórsundi í dag spurði fréttamaður mbl.is hann að því hvernig gengi með lagið og hvort hann yrði búinn með það áður en hann lyki keppni í Tókýó.

„Heyrðu, það er bara allt í þróun en ég mun ekki klára það fyrir helgina. En ég var að fá sent nýjasta mixið frá pródúsentinum áðan, þannig að ég er búinn að hlusta á það, við erum  búnir að skiptast á pælingum, og svo tökum við góða skorpu þegar ég tek heim.

Við Íva erum líka að fara að semja íslenskan texta við lagið svo við fáum að senda það inn. Þetta lag er á ensku en samkvæmt reglum þarf að skila því inn á íslensku, og síðan má það vera á ensku ef það kemst áfram,“ sagði Már Gunnarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert