Tveggja ára vinna farin að taka toll

Már Gunnarsson skemmti sér konunglega eftir viðtalið við mbl.is í …
Már Gunnarsson skemmti sér konunglega eftir viðtalið við mbl.is í dag en þá ruglaðist japanskur fréttamaður á honum og öðrum keppanda. Úr þessu varð samt viðtal þegar Már tjáði Japananum að hann gæti fundið sig á Spotify. Ljósmynd/Víðir Sigurðsson

Már Gunnarsson var ánægður með að hafa bætt sig frá undanrásunum yfir í úrslitasundið í 200 metra fjórsundinu á Ólympíumótinu í Tókýó í dag, þó það hefði ekki dugað lengra en í áttunda sætið í greininni.

„Ég upplifði þetta sund bara vel. Eins og ég talaði um í morgun þá leit ég á þessi sund hjá mér í dag sem æfingu, skoðaði ekkert möguleika mína á að komast í úrslit eða hvar ég myndi enda. Bringusundið var miklu betra hjá mér núna en í morgun þannig að þetta er góð bæting," sagði Már við mbl.is að sundinu loknu.

Már var í góðum gír þegar hann var kynntur til …
Már var í góðum gír þegar hann var kynntur til leiks fyrir úrslitasundið og sýndi píanótakta í inngöngunni. Kristín Guðmundsdóttir gekk með honum inn. Ljósmynd/ÍF

„Ég er orðinn þreyttur, ég finn það alveg. Það eru ekki bara þessar tvær og hálfa vika sem eru farnar að setjast aðeins á mann heldur eru það líka þessi tvö ár sem eru liðin frá heimsmeistaramótinu árið 2019 þar sem ég setti aðalfókusinn í mínu lífi á 100 metra baksundið, sem síðan fór fram á laugardaginn. Þau eru farin að taka sinn toll. Þetta er búin að vera  tveggja ára stanslaus vinna sem er farin að gera dálítið vart við sig," sagði Már sem nú hefur lokið keppni í þremur greinum af fjórum á Ólympíumótinu.

Már Gunnarsson í flugsundshluta fjórsundsins í dag.
Már Gunnarsson í flugsundshluta fjórsundsins í dag. Ljósmynd/ÍF


Hann keppir í 100 metra flugsundinu á föstudaginn og ætlar að reyna að láta sér ekki leiðast þó farið verið að fækka verulega í Ólympíuþorpinu, vegna þess að allir keppendur eiga að vera horfnir til síns heima tveimur sólarhringum eftir að þeir hafa lokið keppni. Það eru sérreglur á þessu móti vegna kórónuveirunnar.

„Ég verð bara á léttum æfingum fram að sundinu á föstudaginn og verð uppi í þorpi þar sem ég fæ mér gott að borða, hlusta á hljóðbækur, tala við vini mína og reyni að láta mér ekki leiðast. Mér hefur ekkert leiðst hérna í tvær vikur, ég held að það verði heldur ekki vandamál núna, en maður mun eflaust fara að finna aðeins fyrir heimþránni þegar maður sér fólkið fara að tínast í burtu úr hópnum og almennt.

Núna sér maður strax að þorpið er að byrja að tæmast, þetta gæti orðið pínu einmanalegt undir lokin en maður tekur bara á því," sagði Már sem verður einmitt einn Íslendinganna eftir í vikulokin og verður eini fulltrúi íslenska hópsins við lokaathöfn mótsins á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert