Það gekk hreinlega allt upp – og næst er það París

Róbert Ísak Jónsson á viðtalssvæði sundhallarinnar í Tókýó í dag.
Róbert Ísak Jónsson á viðtalssvæði sundhallarinnar í Tókýó í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Róbert Ísak Jónsson gat ekki leynt gleði sinni yfir glæsilegu Íslandsmeti í 200 metra fjórsundi á Ólympíumóti fatlaðra í dag en hann stórbætti eigið met í úrslitasundinu þar sem hann tryggði sér sjötta sætið með frábærum endaspretti.

Hann synti á 2:12,89 mínútum en fyrra metið sem var orðið þriggja ára gamalt var 2:14,16 mínútur. Róbert bætti það því um hvorki meira né minna en 2,27 sekúndur og náði með því sjötta sæti í úrslitasundinu.

„Þetta met var orðið svo gamalt að ég þurfti hreinlega að eyðileggja það. Ég var búinn að vera alltof lengi fastur á þessum tíma og ég get ekki verið sáttari með sjálfan mig en ég er einmitt núna," sagði Róbert við mbl.is strax eftir sundið.

Hann fékk tímana í einstökum greinum staðfesta hjá Kristínu Guðmundsdóttur, formanni sundnefndar Íþróttasambands fatlaðra, á meðan viðtalið stóð yfir og var ánægður með þær niðurstöður.

Róbert Ísak Jónsson stingur sér í lauginni í Tókýó.
Róbert Ísak Jónsson stingur sér í lauginni í Tókýó. Ljósmynd/ÍF

Synti nógu hratt til að fá mígreni

„Mér fannst sundið allt geðveikt hjá mér og það er frábært að sjá þessa tíma. Ég bætti mig í fluginu, bakinu, bringunni og skriðinu – það gekk hreinlega allt upp. Ég synti allavega nógu hratt til að fá mígreni, ég fann reyndar fyrir því fyrr í dag en það er ekkert nýtt og ég hristi það af mér," sagði Róbert.

Þar með náði Róbert sjötta sæti í tveimur greinum í flokki S14, þroskahamlaðra, á mótinu í Tókýó og setti samtals fjögur Íslandsmet, tvö í 100 metra flugsundi, eitt í 50 metra flugsundi og eitt í 200 metra fjórsundi. 

„Ég á ekki annað orð yfir það en að þetta sé virkilega gott. Þetta er það sem mig langaði til að gera þegar ég kom hingað og það gat ekki orðið betra, nema náttúrulega að fá verðlaun. En maður getur ekki fengið allt," sagði Róbert og hló.

Hann sagði að næsta markmið sitt væri alveg á hreinu.

„Já, ég er búinn að setja mér markmið. Það er að mæta á næsta Ólympíumót í París eftir þrjú ár, árið 2024, og markmiðið sem ég er búinn að setja mér núna er að fá verðlaunapening þar. Það er alveg á hreinu," sagði Róbert einbeittur.

Róbert Ísak Jónsson á fullri ferð í flugsundi.
Róbert Ísak Jónsson á fullri ferð í flugsundi. Ljósmynd/ÍF

Hvíld þar til mig langar til að byrja aftur

Eftir þrjár keppnisgreinar í Tókýó, í kjölfarið á löngum undirbúningi fyrir mótið er komið að hvíldartíma hjá Hafnfirðingnum unga.

„Jú, það er rétt, ég tek mér góða hvíld eftir allt þetta. Ég verð að fá að slaka á og endurhlaða batteríin þar til ég byrja að synda aftur í haust. Ætli ég verði ekki í fríi fram í október, eða bara þangað til mig langar til að byrja að synda aftur. Ég elska að synda svo það verður ekki mjög langur tími en maður verður að hvíla sig," sagði Róbert og bað fyrir þakkarkveðjur í lokin.

„Mig langar til að þakka mömmu og pabba fyrir að styðja mig svona vel og hjálpa mér, og svo þjálfurunum mínum þeim Mladen og Klaus fyrir að hjálpa mér að verða betri. Líka öllum þeim sem hafa sent mér hvatningarskeyti og fylgst með mér synda," sagði afreksmaðurinn Róbert Ísak Jónsson við mbl.is að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert