Arna fimmtánda í seinni keppninni

Arna Sigríður Albertsdóttir á brautinni í dag.
Arna Sigríður Albertsdóttir á brautinni í dag. Ljósmynd/ÍF

Ísfirðingurinn Arna Sigríður Albertsdóttir hafnaði í fimmtánda sæti af sextán keppendum í seinni grein sinni á Ólympíumóti fatlaðra í Japan, götuhjólreiðunum, sem fram fóru á Fuji-kappakstursbrautinni norður af höfuðborginni Tókýó í dag.

Arna kom í mark eftir 27 kílómetra á 82,04 mínútum. Hún hóf keppnina öftust í hópnum þar sem hún varð í ellefta og síðasta sæti í tímatökunni í gær. Annika Zeyen, Paralympics-meistarinn í tímatökunni, byrjaði hinsvegar fremst á ráspólnum.

Arna var í fjórtánda sæti eftir fyrsta hringinn af fjórum og fór þá framhjá rásmarkinu rétt á undan Gyeonghwa Lee frá Suður-Kóreu og Elisabeth Egger frá Austurríki. Zeyen var þá fyrst.

Þegar keppnin var hálfnuð, eftir 13 kílómetra, var Arna í fimmtánda sæti, á undan Egger, á tímanum 39,53 mínútur. Jennette Jansen frá Hollandi og Alicia Dana frá Bandaríkjunum höfðu þá tekið forystuna á 28,06 mínútum en Zeyen var tveimur sekúndum á eftir þeim.

Egger hætti keppni og Arna var því öftust í röðinni seinni hluta keppninnar. Hún kom í mark um fimm mínútum á eftir Lee sem var í fjórtánda sætinu.

Jansen varð meistari á 56,15 mínútum, Zeyen fékk silfrið á 56,21 mínútum og Dana bronsið á 56,24 mínútum.

Rásmarkið í morgun, á fyrstu sekúndunni eftir ræsingu þar sem …
Rásmarkið í morgun, á fyrstu sekúndunni eftir ræsingu þar sem Arna Sigríður var aftast í hópnum. mbl.is/Víðir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert