Thelma stefnir á Madeira og París

Thelma Björg Björnsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir aðstoðarkona hennar á sundlaugarbakkanum …
Thelma Björg Björnsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir aðstoðarkona hennar á sundlaugarbakkanum í Tókýó eftir að Thelma lauk sundinu í morgun. Ljósmynd/ÍF

Sundkonan Thelma Björg Björnsdóttir ætlar að halda sínu striki eftir Ólympíumót fatlaðra í Tókýó og hefur sett stefnuna á að komast á fleiri stórmót næstu árin.

Hún varð síðust af þrettán keppendum í 400 metra skriðsundinu í flokki S6, hreyfihamlaðra, í morgun en það er algjör aukagrein hjá Thelmu sem áður komst í úrslit í 100 metra bringusundinu á Tókýó, sinni aðalgrein.

Hún var ekki ánægð með sundið í dag, enda vantaði rúmar 20 sekúndur upp á að hún næði sínum besta árangri.

„Ég hefði viljað ná betri tíma í dag og það vantaði dálítið upp á tæknina hjá mér í þessu sundi, strax frá byrjun og allan tímann,“ sagði Thelma við mbl.is eftir sundið.

Borðtennis og botsía í Ólympíuþorpinu

Hún beið í fjóra daga eftir þessari seinni grein sinni á mótinu en fannst það allt í lagi.

„Það var ekkert mál. Ég æfði á milli og í Ólympíuþorpinu er hægt að gera margt í skemmtihorninu, fara í borðtennis, botsía og fleira þannig að mér leiddist ekkert,“ sagði Thelma og er farin að horfa fram á veginn.

„Ég ætla að fara í smá pásu frá sundinu þegar ég kem heim, hvíla mig í svona þrjá til fjórar vikur, og fara svo aftur af stað. Þá fer ég að æfa aftur af fullum krafti og á næsta ári ætla ég að komast á heimsmeistaramótið. Það er í Funchal á Madeira, ég hef komið þangað áður og það er skemmtilegur staður.“

Thelma, sem er 25 ára gömul, á nú tvö Ólympíumót að baki því hún keppti líka í Ríó árið 2016. Hún sér alveg fyrir sér að verða með á næsta móti sem fram fer í París árið 2024 en margir tala einmitt um að það sé auðveldara að stefna á það mót en oft áður því nú eru þrjú ár á milli en ekki fjögur eins og vanalega.

„Mér líst mjög vel á að stefna á að fara til Parísar eftir þrjú ár, alveg örugglega. Ég ætla að komast þangað," sagði Thelma.

Thelma Björg Björnsdóttir í 400 m skriðsundinu í morgun.
Thelma Björg Björnsdóttir í 400 m skriðsundinu í morgun. Ljósmynd/ÍF

Gleymdi löngu sundtökunum

Kristín Guðmundsdóttir þjálfari hennar um árabil og aðstoðarkona hennar á þessu móti sagði að skýringin á lakari tíma Thelmu í þessu sundi væri sú að hún hefði gleymt að fara að fyrirmælum.

„Það gerist stundum eitthvað þegar hún er komin ofan í laugina og byrjuð að keppa. Hún verður stundum stressuð og þá verða sundtökin of stutt. Ég var búin að segja henni að hugsa um mig og mála regnboga þegar hún gerði yfirtakið og svo hugsa um að klóra í botninn fyrir Steindór í hinu takinu.

En hún gleymdi alveg að hugsa til okkar og það er bara eitthvað sem gerist þegar hún hoppar ofan í laugina, kuldinn og spennustigið hafa þessi áhrif, og hendurnar verða eins og þeytispjöld. Það vantaði því tæknina að þessu sinni og löngu og góðu sundtökin. Þau voru alltof stutt,“ sagði Kristín við mbl.is.

Nógur tími og Thelma einbeitir sér að sundinu

„Við vitum vel hvað þarf að laga og nú er bara að æfa það. Ég held að hún sé komin með ógeð á mér fyrir að vera alltaf að stagast á því að hún eigi að taka löng tök, og aftur löng tök! En eins og við segjum, Kristín Rós fór á fimm leika á sínum tíma og blómstraði á þeim þriðju, þannig að það er nógur tími til stefnu og bara þrjú ár í næsta Ólympíumót. Thelma tekur þetta bara sem atvinnusundmaður, hún vinnur ekki og getur einbeitt sér að sundinu.

Svo er 100 metra bringusundið hennar aðalgrein og það er hún búin að leggja alla áherslu á. Eins skrýtið og það er var ekki boðið upp á 100 metra skriðsund í hennar flokki, því það hefði verið miklu nær að synda það. Þetta var því algjör aukagrein fyrir Thelmu, en um leið gott fyrir hana að öðlast meiri keppnisreynslu. Það er það sem hún þarf, keppa og keppa til að ná niður spennustiginu. Það var hluti af því að taka þátt í þessari grein,“ sagði Kristín Guðmundsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert