Var barnshafandi er hún vann silfur á Ólympíuleikunum

Elinor Barker, önnur frá vinstri.
Elinor Barker, önnur frá vinstri. AFP

Hjólreiðakonan Elinor Barker hefur greint frá því að hún beri barn undir belti og hafi raunar verið barnshafandi þegar hún tryggði sér silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Tókýó í ágúst.

Barker, sem er 27 ára Walesverji, á von á sínu fyrsta barni og greindi frá því á Instagramaðgangi sínum í gær að hún hafi verið ólétt þegar hún hjálpaði liði Stóra-Bretlands að krækja í silfurverðlaun í liðakeppni kvenna í hjólreiðum á leikunum.

Gleðitíðindin eru enn merkilegri fyrir þær sakir að fyrir tveimur árum greindi Barker frá því að hún glími við legslímuflakk, sem ein af hverjum tíu konum á barneignaaldri glímir við.

Legslímuflakk getur valdið gífurlegum sársauka, sérlega slæmum túrum og mikilli þreytu. Ástandið getur einnig valdið erfiðleikum við að verða barnshafandi og gleði Barker og kærasta hennar því mikil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert