Trúin flutti fjöll og tryggði gull

Elaine Thompson-Herah, fyrir miðju, sló áratuga gamalt ólympíumet í 100 …
Elaine Thompson-Herah, fyrir miðju, sló áratuga gamalt ólympíumet í 100 metra spretthlaupi á leikunum í Tókýó í sumar. AFP

Jamaíski spretthlauparinn Elaine Thompson-Herah segist hafa þurft að taka til í höfðinu á sér í sumar, skömmu áður en hún vann þrjú ólympíugull á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Tveimur vikum áður en Thompson-Herah átti að taka þátt í undirbúningsmóti Jamaíka fyrir Ólympíuleikana glímdi hún við meiðsli á hásin.

Thompson-Herah hafði þurft að glíma við meiðslin af og á undanfarin fimm ár allt frá því að hún vann ólympíugull á leikunum í Ríó í bæði 100 metra og 200 metra spretthlaupi.

Hún óttaðist að missa af æfingamótinu og á meðan hún hvíldist og kældi hásinina vissi Thompson-Herah að hún þyrfti einnig að jafna sig andlega.

„Hugur minn var ekki á réttum stað. Ég þurfti að breyta þessum röddum í höfði mínu,“ sagði hún í All About hlaðvarpi BBC.

Thompson-Herah er strangtrúuð og hóf að biðja og lesa biblíuna á hverjum morgni, auk þess að hlusta endurtekið á lagið Anywhere You Lead Me I Will Go eftir nígeríska gospelsöngvarann Mercy Chinwo.

Jákvæð skilaboð til sjálfrar sín

Trú hennar jók trú Thompson-Herah á sjálfa sig. Hún hóf einnig að skrifa jákvæð skilaboð til sjálfrar sín á símann sinn eftir hverja æfingu.

„Ég mun hlaupa á 10,5 sekúndum. Ég mun hlaupa á 21,5 sekúndum. Ég get það. Ég er sigurvegari. Ég er meistari.

Ég mun verða fljótasta kona heims. Segðu það og trúðu því. Ég mun vinna fyrir því og biðja fyrir því. Ég mun verða tvöfaldur ólympíumeistari. Í dag er dagurinn minn. Ég er sú besta,“ stóð í skilaboðunum til hennar sjálfrar.

Þessi skilaboð las Thompson-Herah eftir hverja æfingu og skemmst er að segja frá því að hún vann gull aðra leikana í röð í bæði 100 metra og 200 metra spretthlaupi auk þess sem hún bætti við þriðja ólympíugullinu ásamt liðsfélögum sínum frá Jamaíka í 4x100 metra boðhlaupi.

„Þú skrifar þetta niður, þú segir þetta við sjálfa þig og upphátt og auðvitað ferðu þá að trúa því,“ bætti Thompson-Herah við í hlaðvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert